Fjárfesting og afleidd áhrif orkunýtingar á landsvæðum verða 270 milljörðum króna minni en ella verði breytingar á rammaáætlun raunin.

Atvinnuveganefnd hefur óskað eftir umsögnum um drög að þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Sérfræðingar GAMMA hafa nú skilað umsögn en meðal þess sem þar kemur fram er að þær breytingar sem urðu á drögum að þingsályktuninni og fram koma í endanlegri tillögu muni hafa kostnaðarsamar afleiðingar.

Þær breytingar urðu að virkjanir í neðri hluta Þjórsár og Skrokkölduvirkjun voru færðar í biðflokk. Sérfræðingar GAMMA segja þessar breytingar leiða til þess að fjárfestingar í orkuframleiðslu og flutningi muni dragast saman um 120 milljarða króna á árabilinu 2012-2016 og fjárfestingar í orkufrekum iðnaði og afleidd áhrif af þeim muni dragast saman um 150 milljarða króna. Samtals verður fjárfesting og áhrif fjárfestingar því 270 milljörðum minni en annars hefði verið.

Fyrir vikið verður hagvöxtur 4-6% minni og atvinnulífið verður af um 5.000 ársverkum á þessu fjögurra ára tímabili.