Neytendastofa hefur samið drög að reglum um verðmerkingar og aðrar verðupplýsingar sem stofnunin hefur í hyggju að setja samkvæmt lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu.

Þar segir að með reglunum hyggst Neytendastofa fella úr gildi núgildandi reglur um verðmerkingar, reglur um verðupplýsingar í auglýsingum, reglur um verðupplýsingar veitingahúsa, reglur um birtingu verðskráa hárgreiðslu- og rakarastofa og reglur um birtingu og auglýsingar á aðgöngumiðaverði kvikmyndahúsa.

„Hinar nýju reglur um verðmerkingar og aðrar verðupplýsingar fela í sér litlar efnislegar breytingar frá fyrri reglum. Helstu nýmæli frá fyrri reglum eru í kafla IV. og vill Neytendastofa vekja sérstaka athygli á þeim kafla. Með sameiningu eldri reglna vill Neytendastofa auka skýrleika og aðgengi að reglum um verðmerkingar, óháð starfsgreinum,“ segir á vef Neytendastofu.

Drögin má lesa í heild sinni hér.