*

föstudagur, 4. desember 2020
Innlent 21. október 2019 09:29

Brim kaupir tvær útgerðir

Kaupverðið er þrír milljarðar. Með þeim fer Brim yfir lögbundið kvótaþak fiskveiðistjórnunarlaganna.

Ritstjórn
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim.
Haraldur Guðjónsson

Útgerðarfélagið Brim hefur gert samning um kaup á Fiskvinnslunni Kambi hf. og útgerðarfélaginu Grábrók ehf. Bæði félögin gera út frá Hafnarfirði. Kaupverðið er rúmir þrír milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Með kaupunum fer Brim yfir kvótaþak laga um stjórn fiskveiða en félagið gerir ráð fyrir því að koma málum í rétt horf innan sex mánaða.

Í tilkynningunni kemur fram að Kambur geri út krókabátinn Kristján sem smíðaður var á síðasta ári. Báturinn innheldur nýjan tækjakost og fylgir honum krókaflamark í þorski. Félagið rekur tæknivædda fiskvinnslu í Hafnarfirði með hátæknibúnaði á borð við nýrri vinnslulínu og vatnsskurðarvél frá Völku. Fyrir Kamb greiðir Brim 2,3 milljarða króna en þriðjungur þess verður greiddur með hlutum í Brim.

Grábrók ehf. gerir út krókabátinn Steinunni HF 108 sem var smíðaður árið 2007. Honum fylgir um 850 tonna krókaflamark að mestu í þorski. Kaupverðið er 772 milljónir króna. Samningarnir eru háðir fyrirvörum og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

„Með þessum kaupum erum við að styrkja Brim sem alhliða fyrirtæki í sjávarútvegi. Við viljum  efla  starfsemi Brims samhliða því að við höfum styrkt stöðu okkar í markaðssetningu og sölu á vörum félagsins á erlendum mörkuðum. Við bætum núna við okkur þorskveiðiheimildum, tæknivæddum vinnslueiningum og mannauð sem  gerir félagið  betur í stakk búið til að takast á við erlenda samkeppni í vinnslu íslenskra sjávarafurða. Kambur verður rekinn áfram í húsnæði félagsins sem sjálfstætt dótturfélag Brims en við stefnum að góðu samstarfi með aukna sérhæfingu að markmiði þegar fram líða stundir,“ er haft eftir Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra Brim, í tilkynningunni.

Stikkorð: Brim