Bryndís Hlöðversdóttir hefur í dag verið ráðin deildarforseti lagadeildar Viðskiptaháskólans á Bifröst. Hún mun taka við stöðunni hinn 1. ágúst næstkomandi. Runólfur Ágústsson rektor kynnti starfsfólki og nemendum deildarinnar þetta nú í hádeginu.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir núverandi deildarforseti mun að eigin ósk láta af þeirri stöðu frá sama tíma en hún verður í fæðingarorlofi næsta háskólaár og hyggst í framhaldinu einbeita sér að kennslu og rannsóknum á sviði lögfræði við Viðskiptaháskólann.

Bryndís Hlöðversdóttir er lögfræðingur að mennt, fædd hinn 8. október 1960 á Selfossi. Hún er dóttir Hlöðvers Kristjánssonar fv. öryggisfulltrúa og Estherar Jónsdóttur sjúkraliða. Bryndís á tvo tvo syni, Hlöðver Skúla og Magnús Nóa Hákonarsyni, fædda 1997.

Bryndís var lögfræðingur Alþýðusambands Íslands 1992-1995 en hefur frá þeim tíma verið alþingismaður Reykvíkinga og gengt fjölmörgum trúnaðarstöðum öðrum á sviði stjórn- og félagsmála. Hún var formaður þingflokks Samfylkingarinnar 2001- 2004 og hefur sem alþingismaður setið í menntamálanefnd, félagsmálanefnd, allsherjarnefnd, fjárlaganefnd, umhverfisnefnd, samgöngunefnd og iðnaðarnefnd og í sérnefndum um stjórnarskrárleg málefni. Í nefnd forsætisráðuneytisins um Evrópumálefni frá 2004 og í nefnd um sameiningu sveitarfélaga frá 2004.

Bryndís sat í stjórn Kvenréttindafélags Íslands 1992-1997 og var formaður þess 1995-1997. Hún var í stjórn Ábyrgðasjóðs launa 1993-1995, í þríhliða nefnd félagsmálaráðherra um framkvæmd á samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar 1992-1995, í siðaráði landlæknis 1994-2000 og í ráðherraskipaðri nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum 1998-1999. Bryndís var fulltrúi á Alþjóðavinnumálaþinginu í Genf 1993-1995, í Íslandsdeild VES þingsins frá 2003 og hefur verið í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA frá 2004. Bryndís hefur starfað sem stundakennari á Bifröst síðastliðið ár.

Bryndís mun samhliða nýju starfi segja af sér þingmennsku hinn 1. ágúst nk.