Upplýsingalög og reglur um laun forstjóra ríkisfyrirtækja torvelda rekstur Landsvirkjunar sem á í samkeppni við orkufyrirtæki á alþjóðavettvangi.

Þetta sagði Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Landsvirkjunar, á ársfundi Landsvirkjunar sem nú stendur yfir.

Bryndís vék í erindi sínu að nýlegum upplýsingalögum sem ná ekki eingöngu yfir stjórnsýsluna heldur einnig fyrirtæki í eigu ríkisins. Í því samhengi minnti Bryndís á að stjórnendur Landsvirkjunar tækju ekki stjórnvaldsákvarðanir og upplýsingar um rekstur og einstaka ákvarðanir fyrirtækisins gætu verið viðkvæmar enda væri fyrirtækið í samkeppni við önnur orkufyrirtæki, ekki bara á Íslandi heldur á alþjóðavettvangi. Hún tók þó fram að á síðustu árum hefði Landsvirkjun stigið stór skref í auknu upplýsingaflæði til almennings, m.a. með birtingu á meðalverði á orku til stóriðju sem og áætlaðan kostnað við framtíðar virkjunarmöguleika.

Þá vék Bryndís einnig að lögum um launakjör ríkisstarfsmanna sem sett voru af núverandi ríkisstjórn. Þau fela sem kunnugt er það í sér að enginn starfsmaður ríkisins skal hafa hærri laun en forsætisráðherra. Bryndís vék einnig að þessu í erindi sínu á sama fundi í fyrra og sagði að stjórnvöld hefðu með þessum lögum tekið ákvörðunarvald um laun forstjóra Landsvirkjunar úr höndum stjórnar fyrirtækisins. Bryndís sagði nauðsynlegt að endurskoða þessar reglur enda væri það stjórnarinnar að ákveða laun forstjóra Landsvirkjunar, enda væri hún ábyrg fyrir rekstri fyrirtækisins.