Stjórnendur í íslenskum fyrirtækjum búast við því að Seðlabankinn hækki vexti sína á næstunni. Veðlánavextir eru nú 5,0% en búist er við að þeir hækki um 0,8 prósentustig. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Gallup vann fyrir Samtök atvinnulífsins meðal stjórnenda íslenskra fyrirtækja.

Jafnframt telja flestir stjórnendur að aðstæður í efnahagslífinu verði svipaðir að sex mánuðum liðnum eða rúm 60%. Þó telja 30% að aðstæður muni versna en aðeins 8% að þær muni batna.

Verðbólguvæntingar stjórnenda fyrir næstu 12 mánuðina eru 3,0%. Þá telja 77% þeirra að launakostnaður hafi mest áhrif til hækkunar á verði þeirrar vöru og þjónustu sem þeir selja. Þá telja 13% að aðfangaverð hafi mest áhrif, 5% að eftirspurn hafi mest áhrif, 4% að samkeppnisstaða og álagning hafi mest áhrif og 1% að annar rekstrarkostnaður hafi mest áhrif.

Tæplega helmingur stjórnenda býst við svipuðum hagnaði fyrirtækjanna sem þeir stýra á þessu ári og á því síðasta. Um þriðjungur þeirra býst við auknum hagnaði en um 20% býst við að hagnaður dragist saman.