Færeyski bankinn BankNordik á nú í samningaviðræðum við hugsanlega kaupendur á eignarhlut hans í tryggingafélaginu Verði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Þar kemur fram að niðurstöðu sé að vænta fyrir lok þessa árs.

Bankinn tilkynnti upphaflega að hann hygðist selja hlut sinn í fyrirtækinu í sumar. Friðrik Jóhannsson, meðeigandi hjá Icora Partners sem annast söluferlið, sagði þá í samtali við Viðskiptablaðið að töluverður áhugi væri meðal fjárfesta á hlutnum . Sagði hann að tíðinda yrði líklega að vænta nú í haust.

BankNordik eignaðist ráð­andi hlut í Verði árið 2009 eða 51% og fyrrihluta ársins 2012 eignaðist bankinn allt hlutaféð. Þegar bankinn keypti útistandandi 49% hlutafjár í Verði þá var það í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans. Nú hefur BankNordik til sölu 51% hlut sinn í félaginu en afganginn getur hann ekki selt fyrr en í lok júní ársins 2017 vegna skilmála frá Seðlabankanum.