Hagfræðideild Landsbankans telur ólíklegt að peningastefnunefnd Seðlabankans „ruggi bátnum“ fyrir komandi Alþingiskosningar í apríl og haldi því stýrivöxtum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi bankans 20. mars næstkomandi.

Í Hagsjá Hagfræðideildarinnar segir m.a. að gengi krónunnar hafi styrkst töluvert að undanförnu eftir nær stöðuga veikingu frá því í ágúst. Haldist gengi krónunnar stöðugt næstu mánuði muni að öðru óbreyttu draga úr verðbólguþrýstingi. Frekari inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði gætu einnig haft áhrif en Seðlabankinn hefur gefið út skilaboð á síðustu vikum um að gripið verði inn í veikist krónan verulega á ný.

Þá er bent á að verðbólgan hafi tekið töluvert og fremur óvænt stökk upp á við í síðasta mánuði.

Í Hagsjánni segir orðrétt:

„Gera má þó ráð fyrir að það hafi ekki haft nein teljandi áhrif á langtímaverðbólguspá Seðlabankans sem reiknar eins og oftast áður með hjaðnandi verðbólgu. Peningastefnunefndin vísaði sérstaklega til launaþróunar í síðustu yfirlýsingu sinni. Síðan þá hefur verið gengið frá kjarasamningum við hjúkrunarfræðinga sem fólu í sér töluverðar launahækkanir, að öðru leyti virðist ekki vera mikið að gerast á vinnumarkaði sem ætti að hvetja til vaxtabreytinga að sinni.“