Hannes Smárason, forstjóri FL Group sem er eigandi Icelandair Group, segir að hann búist við að hlutabréf í fyrirtækinu muni seljast fyrir um 200 milljónir evra (17,7 milljarða króna) við skráningu Icelandair Group í Kauphöll Íslands, segir í Focus-dálki Dow Jones.

Stóð til að skrá Icelandair Group á öðrum ársfjórðungi, en ekki varð af því. Búist er við að FL Group taki ákvörðun um málið á næstu vikum, segir í fréttinni.

Hannes tilkynnti fyrir skömmu að FL Group væri að íhuga að skrá Sterling flugfélagið á hlutabréfamarkað, en það þykir gefa til kynna að fyrirtækið hafi trú á gengi flugfélaga á hlutabréfamörkuðum og að verði af skráningu Icelandair Group, segir í fréttinni.

Nýlegar skráningar flugfélaga á hlutabréfamarkaði hafa ekki gengið sem skyldi, en fyrsta útboð hlutabréfa í flugfélögunum Air Berlin og Air China var talsvert undir væntingum, segir í fréttinni.

Greiningaraðilar telja að hryðjuverkaógn muni ekki hafa áhrif á skráningu flugfélaga á hlutabréfamarkaði, en hækkandi olíuverð gæti hinsvegar gert það, en nú fer olíufatið á yfir 70 Bandaríkjadali. Air China gaf olíuverð upp sem ástæðu fyrir slöku gengi hlutabréfa fyrirtækisins.