Í dag er vaxtaákvörðunarfundur hjá seðlabanka Bandaríkjanna og í Morgunkorni Íslandsbanka segir að reiknað sé með að bankinn hækki stýrivexti úr 1,5% í 1,75%. Þá er reiknað með að bankinn hækki stýrivexti enn frekar fyrir áramót og verði þeir þá komnir í 2%. Bandaríska hagkerfið er statt á svipuðum slóðum í hagsveiflunni og það íslenska. Hagvöxtur er mikill enda uppsveiflan hafin og í samræmi við það hófst vaxtahækkunarferli seðlabankans fyrr á þessu ári. Vinnumarkaður í Bandaríkjunum hefur þó ekki tekið almennilega við sér og mælist atvinnuleysi 5,4%.

Í Morgunkorninu kemur fram að hækkun stýrivaxta verður þó nánast örugglega á dagskránni í dag en meðfylgjandi athugasemdum seðlabankans er beðið með eftirvæntingu þar sem mögulegt er að bankinn muni gefa til kynna breytta afstöðu til þróunar stýrivaxta á næstunni.