Seðlabankinn í Búlgaríu segir að það hafi verið gerð kerfisbundin árás til þess að veikja bankakerfið. Seðlabankinn segir að til allra ráða verði gripið til þess að verja innistæður i bönkunum. Hlutabréf í búlgörskum bönkum hafa snarlækkað tvo daga í röð.

Áhlaup var gert á fjórða stærsta bankann í landinu og óttast er að það muni breiðast út til annarra banka. Seðlabankinn hefur tekið yfir stjórn á umræddum banka og segir að um einangrað vandamál sé að ræða. Í gær sagði háttsettur maður í öðrum stjórnarflokknum í Búlgaríu að hætta væri á að annar banki færi sömu leið og eftir það dró verulega úr trausti á bankakerfið sem olli því að bréf í bönkunum lækkuðu verulega.

„Á síðustu dögum hafa verið gerðar tilraunir til þess veikja stöðu ríkisins með skipulögðum árásum á búlgarska banka án nokkurrar ástæðu,“ sagði seðlabankinn í yfirlýsingu. Bankinn segir að ósönnum og illkvittnum sögum um stöðu bankanna hafi verið dreift.

BBC greindi frá.