Burðarás hefur keypt 12,3% hlut í sænska upplýsingatæknifyrirtækinu Scribona. Seljandi er fjárfestingafélagið Bure sem fær sem svarar 850 milljónir kr. eða 96 milljónir sænskra króna fyrir þau 6,3 milljónir bréfa sem skipta um hendur. Eftir kaupin á Burðarás 7,6 milljónir B-hlutdeildarbréfa í Scribona eða um 14,9% hlut. Greint var frá þessu í netútgáfu Dagens Industri.

Þar er bent á að Burðarás hafi síðasta haust keypt sem svarar 20% hlut í verðbréfafyrirtækinu Carnegie. Einnig að það sé skoðun þeirra Burðarásmanna að það séu veruleg verðmæti í starfsemi Scribona þegar núverandi aðahaldsaðgerðir verða komnar í gang á miðju ári 2005.

Haft er eftir Ragnari Þórissyni hjá Burðarás að þeir telja mikið verðmæti í Scribona og félagið hafi verið vanmetið um nokkurt skeið. Velta félagsins sé mikil en afkoman hafi verið slök en hann sagðist telja að þær aðhaldsaðgerðir, sem gripið var til, muni skila sér innan 12-18 mánaða.