Mikið af fjárfestingum Burðaráss hefur verið í Svíþjóð á undanförnum misserum. Fyrir utan umrædda fjárfestingu í Skandia þá hefur félagið tilkynnt um 20% eignarhlut í fjárfestingarbankanum Carnegie og 15% eignarhlut í upplýsingatæknifyrirtækinu Scribona eins og greiningardeild Landsbankans vekur athygli á í Vegvísi sínum. Auk þess hefur komið fram í netútgáfu Dagens Industri að Burðarás eigi hlut í sænsku félögunum Micronic og Intrum Justitia.

Burðarás tilkynnti í dag að félagið ætti 3,4% eignarhlut í sænska tryggingarfélaginu Skandia. Markaðsvirði hlutarins er um 11 ma.kr. KB banki tilkynnti einmitt í síðustu viku að bankinn ætti 2,5% eignahlut í Skandia og því eiga þessir tveir aðilar samtals tæp 6% í sænska félaginu segir í Vegvísi Landsbankans.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.