Burðarás hefur keypt 4,6% til viðbótar í sænska fjárfestingarbankanum D.Carnegie & Co. og á nú 17,9% hlutafjár. Kaupverðið á viðbótinni er um 2,5 ma.kr. og eignarhluturinn í heild um 9,5 ma.kr. virði. Fyrir tæpum tveimur vikum keypti Burðarás 13,3% hlut og varð með því stærsti einstaki hluthafi í félaginu. Gengi bréfanna hefur lítið breyst frá þeim tíma sem fyrri hlutinn var keyptur (hækkað um 1,8%) en gengi Carnegie er 19,4% hærra en um síðustu áramót.

"Við fyrri kaupin sögðu talsmenn Burðaráss að þau væru liður í fjárfestingarstefnu Burðaráss, sem meðal annars felur í sér fjárfestingu í hlutabréfum fjármálafyrirtækjum. Það er hins vegar líklegt að markmið Burðaráss sé að ná yfirráðum í Carnegie. Eftir þessi kaup er það líklegra en áður. Slíkt verkefni yrði mögulega unnið í samvinnu við Landsbankann. Markaðsverðmæti Carnegie er um 53 ma.kr. en markaðsverðmæti Burðaráss um 69 ma.kr.," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.