Nú kann að fara svo að George W. Bush, bandaríkjaforseti sé eina von bandarísku bílaframleiðandanna General Motors, Chrysler og Ford eftir að Öldungadeild bandaríkjaþings hafnaði í gærkvöldi frumvarpi um 14 milljarða dala neyðarláni til handa félögunum þremur.

Nú binda bílaframleiðendur vonir til þess að bandaríkjaforseti nýti eitthvað af þeim 700 milljörðum dala sem þingið samþykkti nýlega að veita til björgunar fjármálafyrirtækjum.

Bush forseti hefur þó hingað til sagt að ekki komi til greina að nýta það fjármagn í annað en að bjarga fjármálageiranum.

Dana Perino, talsmaður Hvíta hússins sagði þó í dag að ljóst væri að gjaldþrot bílaframleiðendanna myndi hafa veruleg áhrif á hagkerfið í heild og því yrði reynt að koma í veg fyrir það.

Það þykir gefa til kynna stefnubreytingu í Hvíta húsinu.

Bandaríkjaþing er nú komið í jólafrí þannig að segja má að boltinn sé í Hvíta húsinu yfir hátíðarnar.