George W. Bush, bandaríkjaforseti hefur lýst yfir áhuga aukinni aðstoð hins opinbera til að sporna við þeirri niðursveiflu sem virðist blasa við bandarískum mörkuðum. Þetta kom fram hjá Bloomberg fréttaveitunni í gær.

Í síðustu viku lýsti Bush því yfir að hann vilji 150 milljarða dala innspýtingu frá hinu opinbera inn í bandarískt efnahagslíf. Það er um 1% af vergri landsframleiðslu Bandaríkjanna. Talsmaður Hvíta hússins sagði í gær að ekki væri útilokað að auka við þetta en það myndi skýrast þegar unnið verður að áætlunum í samráði við þingdeildir Bandaríkjaþings.

Fulltrúar Hvíta hússins munu á næstu dögum funda með leiðtogum beggja deild þingsins en þeim er stjórnað af Demókrataflokknum.

Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Henry Paulson fagnaði stýrilækkunum bandaríska seðlabankans í gær og bætti því við að hann teldi bandarískt efnahagskerfi í stakk búið að takast á við þau vandamál sem blasa við.

Þó eru skiptar skoðanir á ástandi markaða. Dana Perino, talsmaður Hvíta hússins sagði að vissulega væri að hægja um á mörkuðum en ekki yrði um mikla niðursveiflu að ræða. Hún sagði að Hvíta húsið og ríkisstjórnin fylgdust vel með mörkuðum.

Harry Reid, leiðtogi Demókrata í Öldungadeild þingsins sagði að þó svo að ekki væri fyrirsjáanleg kreppa í nánd þá væri vissulega niðursveifla eða hjöðnun í bandarísku efnahagslífi.

Tillögur ríkisstjórnarinnar er að stuðningurinn komi fyrst og fremst í formi skattaafslátta auk annara styrkja á borð við auknar atvinnuleysistekjur, matarmiða og fleira.

Talsmaður Hvíta hússins sagði að 1% af vergri landsframleiðslu ætti að vera nóg til að mæta hugsanlegri niðursveiflu, en útilokaði sem fyrr segir ekki aukna aðstoð. Hún sagði að enn ætti eftir að útfæra nánar með þinginu með hvaða hætti hið opinbera kæmi að málinu.

Þrátt fyrir mikla stýrivaxtalækkun í gær virðist sem svo að markaðir hafi ekki brugðist við eins og búist hafði verið við að því er Bloomberg greinir frá. Nasdaq, Dow Jones og S&P 500 lækkuðu allar og sýndu rauðar tölur allan daginn.

Markaðir voru lokaðir síðastliðinn mánudag vegna hátíðardags í Bandaríkjunum en á meðan lækkuðu markaðir hratt í Evrópu og Asíu. Við opnun markaða í Bandaríkjunum í gær lækkuðu vísitölur hratt og náðu sér ekki á strik.