Byggingarvöruverslanir og önnur þjónustufyrirtæki við byggingariðnaðinn fara ekki varhluta af samdrætti í greininni að því er fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag. Ein stór byggingarvöruverslun, MEST, er þegar fallin og önnur byggingavörufyrirtæki berjast nú við að laga sig að gríðarlegum samdrætti og versnandi ástandi. Þá hefur þýska byggingavörukeðjan Bauhaus sett áætlanir í biðstöðu um að opna nýja verslun í Reykjavík.

Steinn Logi Björnsson, forstjóri Húsasmiðjunnar segir að fyrirtækið hafi verið að draga saman seglin líkt og aðrir að undanförnu til að búa sig undir þann mikla samdrátt sem nú ríður yfir þjóðfélagið.

„Mér sýnist þetta vera í takti við það sem við bjuggumst við. Við lokuðum Egginu við Smáratorg í september og erum að gera ýmsar breytingar á höfuðborgarsvæðinu. Þannig lokum við pípulagningarbúðinni okkar og flytjum þá starfsemi inn í hinar verslanirnar okkar. Þá lokum við líka í Ögurhvarfinu í Kópavogi. Við erum líka búin að segja upp töluverðum fjölda af fólki og skera niður annan kostnað mjög verulega," segir Steinn Logi. Byrjað hafi verið á aðhaldsaðgerðum í mars í fyrra og hert hafi verið á þeim eftir mitt sumar 2008 og í haust.

Hann segir stöðuna úti á landi með öðrum hætti því sér sýnist að samdráttur verði minni þar en á höfuðborgarsvæðinu. Hann gerir þó ráð fyrir að starfsemi Húsasmiðjunnar verði að mestu óbreytt á landsbyggðinni. Óvissan sé einkum hvernig málin þróist á höfuðborgarsvæðinu. Þar skipti t.d. verulegu máli hvaða ákvarðanir verði teknar varðandi uppbyggingu tónlistarhússins í Reykjavík.

Húsasmiðjan hefur líkt og BYKO talsvert verið að lána byggingarverktökum vegna efniskaupa og óttast menn nú að verulegur hluti af þeim kröfum kunni að tapast vegna ástandsins.

„Maður gerir ráð fyrir því að það verði meiri afföll vegna þessara viðskipta en verið hafa. Hversu mikið það verður veit maður þó ekki. Ástandið er vissulega skelfilegt á markaðnum í heild."

Telur Steinn Logi að ef engin stóráföll bætist við, þá eigi þetta að ganga upp. Nær vonlaust sé þó að spá um framvinduna, hvorki í atvinnulífinu frekar en í ríkisfjármálunum yfirleitt.

BYKO rekur stærstu byggingavöruverslun landsins í Breiddinni í Kópavogi, auk 7 annarra verslana á höfuðborgarsvæðinu og víða um land. Undir rekstur BYKO heyra einnig fyrirtækin ELKO, Intersport og Húsgagnahöllin.

BYKO hefur mjög verið að byggja upp sína starfsemi á undanförnum misserum og árum m.a. með opnun nýrra verslana í Reykjavík, Kópavogi og Garðabæ. Allt hlýtur þetta að vega þungt í þeim mikla samdrætti sem nú er.

Sigurður E. Ragnarsson, forstjóri BYKO, segir að engar ákvarðanir hafi samt verið teknar um að fækka núverandi verslunum BYKO. Miklu sex ára uppbyggingaferli hafi í raun lokið með opnun nýrrar verslunar á Grandanum í Reykjavík 24. apríl 2008.

„Þannig erum við líka búnir að byggja okkur upp til næstu tíu til fimmtán ára. Eins og staðan er núna höfum við ekki tekið ákvarðanir um að draga okkur út úr neinu af þessum dæmum."

Hann segir samt augljósan samdrátt á markaðnum og að vanskil hafi verið að aukast.

„Það er líka einhver aukning í afskrifuðum kröfum og óvissa framundan. Ég velti fyrir sér hvernig næstu mánuðir verða, þ.e. janúar, febrúar og mars. Þetta geta orðið töluvert erfiðir mánuðir í þessum bransa. Maður hefur hins vegar einhverjar væntingar um að þetta skáni síðan með hækkandi sól. Það fer þó gríðarlega mikið eftir því hvaða fjármuni ríki og sveitarfélög setja í framkvæmdir. Það hangir mikið á þeirri spýtu því byggingariðnaðurinn er mjög mannaflsfrekur."

Hann segir að menn hafi verið og séu í aðhaldsaðgerðum sama í hvaða horn er litið. – „Menn velta sér upp úr þessu fram og til baka, starfsmannamálum og öllum öðrum kostnaði sem hægt er að festa hönd á. Fyrsta aðgerðin sem við tókum ákvörðun um í þessa veru í byrjun október var að lækka laun hjá forstjóra og framkvæmdastjórum fyrirtækisins," segir Sigurður E. Ragnarsson.