Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Reykjavíkurborg skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu á 1.000 íbúðum á næstu fjórum árum. Viljayfirlýsingin verður unnin á grundvelli væntanlegra laga um almennar íbúðir, sem nú liggur fyrir Alþingi og er háð fyrirvara um samþykkt þess og samþykki stjórnvalda vegna stofnframlags ríkisins.

„Alþýðusambandið mun í tilefni af 100 ára afmæli sínu standa fyrir stofnun almenns íbúðafélags, leggja fram nauðsynlegt stofnfé og leita til aðildarfélaga sinna um nauðsynlega rekstrarfjármögnun," segir á vef ASÍ.  „Reykjavíkurborg mun leggja til lóðir vegna uppbyggingarinnar. Markmið félagsins er að bjóða upp á ódýrt leiguhúsnæði fyrir tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga.

Unnið verður að uppbyggingunni í samræmi við samþykktir ASÍ í húsnæðismálum, samþykktir almenna íbúðafélagsins, húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar, leiðarljósa borgarráðs um Nýju Reykjavíkurhúsin og samningsmarkmið Reykjavíkurborgar um ný uppbyggingarsvæði.

Verkalýðshreyfingin og Reykjavíkurborg hafa verið lykilsamstarfsaðilar þegar hefur komið að átaki í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og má þar nefna verkamannabústaðina við Hringbraut og Breiðholti ásamt íbúðum í Ártúnsholti og víðar. Áratugir eru síðan verkalýðshreyfingin hefur komið með jafn beinum og afgerandi hætti að uppbyggingarverkefnum í borginni og í jafn nánu samstarfi við borgaryfirvöld."