Byko hefur keypt Egil vélaverkstæði ehf. í Kópavogi. Þar með er Byko að útvíkka starfsemi sína enn frekar hérlendis. Egill vélaverkstæði ehf. varð til árið 1984, er þáverandi starfsmenn keyptu renni- og mótorverkstæði af Agli Vilhjálmsyni hf. en þær deildir voru stofnaðar á fjórða áratug 20. aldar. Egill vélaverkstæði hefur starfað í 700 fermetra eigin húsnæði að Smiðjuvegi 9a, Kópavogi.

Freyr Friðriksson, framkvæmdastjóri Egils, var orðinn aðaleigandi fyrirtækisins en hann segir söluverðið vera trúnaðarmál. Fyrirtækið verði rekið áfram með líku sniði og áður og með sama mannskap. Þó sé stefnt að því að efla starfsemina með alhliða þjónustu á vélasviði.