*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 22. maí 2018 11:11

Bylting í meðhöndlun bakteríusýkinga

Akthelia þróar lyf sem auka náttúrulegt viðnám gegn bakteríusýkingum en félagið leitar nú fjármagns.

Ísak Einar Rúnarsson
Guðmundur Hrafn Guðmundsson, Egill Másson og Eiríkur Steingrímsson hjá Akthelia.
Haraldur Guðjónsson

Fyrirtækið Akthelia þróar nýtt lyf við bakteríusýkingum sem gæti umbylt því hvernig slíkar sýkingar eru meðhöndlaðar. Það leitar nú fjármagns fyrir frekari tilraunir en ef allt gengur vel gæti lyfið komið á markað 2022 eða 2023.

Lyftæknisprotinn Akthelia þróar nú lyf sem hefur möguleika á að bylta því hvernig bakteríusýkingar eru meðhöndlaðar í heilbrigðiskerfinu. Ef allt gengur vel gæti lyfið verið að koma í notkun 2022 eða 2023.

„Aðdragandinn að þessu er langur og þetta byggir á grunni sem eru rannsóknir Guðmundar Hrafns Guðmundssonar, prófessors við Háskóla Íslands, og Birgittu Akerberth við Karolinska stofnunina. Rannsóknirnar snúa að bakteríudrepandi peptíðum, sem eru lítil prótín sem eru í öllu yfirborði mannslíkamans og eru fyrsta vörnin gegn bakteríusýkingum. Þetta er okkar náttúrulega vörn gegn bakteríusýkingum.

Í fyrsta lagi höfðu þau einangrað fyrstu peptíðin sem fundust og þau höfðu skoðað þetta heilmikið. Eitt af því sem þau sáu var að sjúkdómsvaldandi bakteríur gátu slökkt á þessu kerfi, þannig að peptíðin yrðu ekki framleidd lengur. Þannig náðu bakteríurnar að valda usla. Þá hugsuðu þau með sér að fyrst það væri hægt að slökkva á því, þá hlýtur að vera hægt að kveikja á því aftur,“ segir Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Háskóla Íslands og einn af stofnendum Akthelia.

Um aðkomu sína að verkefninu segir hann: „Ég var búinn að vera að ræða þetta við þau lengi og við ákváðum að gera leit að lyfjum sem gátu haft áhrif á framleiðsluna. Við fundum slík lyf og erum með efnaflokk sem hefur þessi áhrif. Hann hvetur framleiðslu peptíða í frumum og við vitum að hann gerir það sama í dýrum,“ segir Eiríkur.

Næstu skref fyrirtækisins eru hefðbundnar lyfjaþróunartilraunir. Forsvarsmenn fyrirtækisins leita nú að fjárfestum til þess að fjármagna tilraunirnar.

„Við reiknum með að þetta fyrsta skref geti tekið ár og erum að áætla kostnaðinn um 120 milljónir íslenskra en við erum að leita að peningum í það akkúrat núna. Síðan taka við dýrari skref þar sem þarf að prófa lyfin í fólki. Í fyrsta lagi að gera einföld próf en síðan að prófa hvort þetta virkar á sjúklinga. Við höfum verið að leita til fagfjárfesta, áhættufjárfesta hérlendis, í Svíþjóð og í Bandaríkjunum. Hugmyndunum hefur verið tekið mjög vel en fólki hefur þótt þetta áhættusamt. Það er bara eðli bransans. Svo erum við að sækja um alls konar styrki til að fjármagna þetta,“ segir Eiríkur.

Gæti þetta leyst af hefðbundin sýklalyf?

„Það gæti gert það og þetta gæti verið til viðbótar. Að sama skapi gæti þetta verið notað til þess að hjálpa við það hvernig menn nota fúkkalyf. Menn nota þau svo ofsalega mikið í dag en ef þú hefur aðra möguleika eins og þessi lyf sem við erum að þróa, þá gætirðu notað fúkkalyfin minna.

Það er ein af þessum leiðum sem menn eru að fara til þess að minnka hættuna á þessum ofurþolnu bakteríum, það er að ákveða með markvissum hætti hvenær eigi að nota fúkkalyf og hvenær ekki,“ segir Eiríkur og bætir við að lyfið gæti haft forvarnagildi. „Við höfum talsverðar upplýsingar um að þetta virki mjög vel á magasýkingar. Þannig að þegar menn eru að fara til landa þar sem slíkt er algengt þá gæti þetta virkað sem forvörn.“