Það er gömul klisja að þegar næsta bylting kemur þá verði henni sjónvarpað í beinni og í raun má segja að þessi spá hafi ræst í hinu svokallaða arabíska vori, þegar hverjum einræðisherranum á fætur öðrum var steypt á þessu ári. Í Bandaríkjunum halda menn hins vegar öðruvísi á hlutunum.

Vart hefur farið framhjá þeim sem fylgjast með fréttum að í stærstu borgum þar í landi hefur nokkur fjöldi óþveginna ungmenna tekið yfir svæði nálægt ráðhúsum og bankastofnunum og kallað það landtöku (e. Occupy).

Þetta fólk, sem mjög er andsnúið kapítalismanum, er því alls ekki ánægt með frumkvæði Ray Agrinzone, sem selur boli og kaffibolla merkta landtökuhreyfingunni og hefur sótt um einkaleyfi á vörumerkjum tengdum henni.