Stjórn Byrs hf. hefur í kjölfar söluferli Byrs hf. ákveðið að ganta til samninga við Íslandsbanka um útgáfu nýs hlutafjár og hefur samkomulag þess efnis verðir undirritað. Einnig hefur verið gert samkomulag við slitastjórn Byrs sparisjóðs og Fjármálaráðuneytið sem selja Íslandsbanka allt hlutafé sitt í Byr hf. og er gert ráð fyrir að í kjölfarið verði starfsemi Íslandsbanka og Byrs hf. sameinuð undir merkjum Íslandsbanka. Þess ber að geta að sameiningin er háð samþykki Samkeppniseftirlits og Fjármálaeftirlits og verður starfsemi fyrirtækjanna óbreytt á meðan samþykkis er beðið.

Á næstu vikum munu starfsmenn Íslandsbanka og Byrs hf. hefja undirbúning að útfærslu á sameiningu fyrirtækjanna.  Í þeirri vinnu verða sjónarmið og hagsmunir viðskiptavina, starfsmanna, eigenda og eftirlitsaðila í fyrirrúmi.

„Þessi niðurstaða er mikilvægur áfangi í uppbyggingu  fjármálakerfisins og ljóst að með sameiningunni verður til eitt öflugasta fyrirtæki landsins í fjármálaþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Við hjá Íslandsbanka hlökkum til að starfa með stjórnendum og starfsfólki Byrs að því að skapa sterka og öfluga heild. Í sameiningu munum við áfram leggja áherslu á að sinna viðskiptavinum Byrs og Íslandsbanka með framúrskarandi þjónustu.  Starfsfólk Byrs og Íslandsbanka hefur staðið sig afar vel í varnarbaráttu síðustu ára og hefur byggt upp traust sambönd við viðskiptavini sína. Það er lykilatriði að viðhalda því trausti með  persónulegri  og faglegri þjónustu sem hefur einmitt verið aðalsmerki þessara tveggja banka.  Sameinaður banki verður í enn sterkari stöðu til þess að treysta undirstöður atvinnulífs og þjóna heimilum í landinu,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, í fréttatilkynningunni.