Seinni úthlutun skólastyrkja Byrs á þessu ári fór fram  miðvikudaginn 7. júlí og fengu 2 háskólanemar 200.000 króna styrki hvor og 4 framhaldsskólanemar 25.000 króna styrki.Hátt í þrjú hundruð umsóknir bárust. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Byr hefur sent frá sér.

Styrkþegarnir á háskólastigi að þessu sinni eru þær Gréta María Valdimarsdóttir, sem er að hefja nám í vörustjórnun til Ms.c gráðu við tækniháskólann í Chalmers í Gautaborg, Svíþjóð, og Kristín Linda H. Hjartardóttir sem er í doktorsnámi í hjúkrun við University of Minnesota í Bandaríkjunum en hún er sérhæfð í geðhjúkrunarfræðum og hefur sérstakan áhuga á að bæta þjónustu við aldraða sem glíma við geðheilsuna.

„Ég er mjög þakklát og þessi styrkur mun koma sér afar vel. Ég er að fara í mastersnám til Gautaborgar og veit að þar er dýrt að lifa. Því datt mér í hug að sækja um styrk til Byrs en ég hef verið viðskiptavinur þar síðan ég var lítil. Það var ekki fyrr en á þriðja árinu sem ég tók tíma í vörustjórnun og fann mig strax í því fagi. Kennarinn sem kenndi þá tíma vinnur einnig við Chalmers tækniháskólanum í Gautaborg og því fór ég að skoða þann skóla nánar. Mér líkar við allt sem tengist þessu fagi, og svo eru foreldrar mínir með heildsölu svo ég get tengt það náminu,“ segir Gréta María í fréttatilkynningunni. Gréta María lauk Bs.c. gráðu í iðnaðarverkfræði fyrir skemmstu.

Styrkþegarnir á framhaldsskólastigi eru Sigurður Andrean Sigurgeirsson, Flensborg, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, MS, Perla Ósk Hjartardóttir VÍ, og Helga Kristín Guðmundsdóttir, MS.