Vaxtalækkunarskref Seðlabankans fyrr í dag er það stærsta sem bankinn hefur tekið frá því þokkalegur stöðugleiki komst á gengis- og vaxtamál í kjölfar fjármálakreppunnar 2008-09. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði meginvexti bankans um 0,75% í morgun .

Greiningardeild Íslandsbanki telur að með lækkuninni sé peningastefnunefndin að bregðast að fullu við breyttum horfum í efnahagslífinu. Greiningardeildin á því ekki von á frekari vaxtaaðgerðum á allra næstu vikum en segir þó að meginvextirnir gætu lækkað í haust ef lægðin í ferðaþjónustu reynist dýpri og langvinnari en spá bankans gerir nú ráð fyrir.

Í umfjöllun greiningardeildarinnar er einnig rætt um viðbrögð á skuldabréfamarkaðnum. Ávöxtunarkrafa bæði óverðtryggðra og verðtryggðra ríkisbréfa lækkuðu umtalsvert í kjölfar vaxtalækkunarinnar.

Ávöxtunarkrafa styttri ríkisbréfaflokka hefur lækkað um 29-46 punkta það sem af er degi og er krafa þeirra nú í kring um 1,5%. Til samanburðar var slík krafa í kring um 3,3% í ársbyrjun. Þá hefur raunkrafa verðtryggðra bréfa lækkað um 9-13 punkta frá opnun markaða og er krafa styttri verðtryggðra ríkisbréfa nú rétt undir 0%.