Björn Kjos, forstjóri norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian Air, segir líklegt að fjöldi flugfélaga muni fara í þrot á þessu ári vegna verðhækkana á eldsneyti.

Forstjórinn segir í samtali við norska dagblaðið Dagens Næringsliv síðasta ár hafa verið með þeim erfiðari í flugrekstri og bendir á að eldsneytiskostnaður Norwegian Air hafi rokið upp um 41% í fyrra. Það brenni gat í bækur flugfélagsins.

Ummæli Kjos féllu í kjölfar þess að ástralska lággjaldaflugfélagið Air Australia fór í þrot í nótt. Fyrirtækið hafði ekki lengur efni á að kaupa eldsneyti á farþegaþotur sínar.

Synda á móti straumnum í kreppu

Kjos er hins vegar bjartsýnn á rekstur þeirra sem komast í gegnum brimskaflinn. Í síðasta mánuði pantaði félagið 222 nýjar farþegaþotur frá Airbus og Boeing fyrir um 22 milljarða dala, um kringum 2.700 milljarða íslenskra króna. Það eru einhver umsvifamestu flugvélakaup sögunnar.

Þegar greint var frá kaupum hafði Reuters-fréttastofan eftir Kjos að þeir muni standa sterkir eftir sem syndi á móti straumnum þegar í harðbakkann slær. Í samræmi við það sé rétt að kaupa nýjar flugvélar í kreppu.