Íslandsbanki hefur formlega lagt fram kæru á hendur stjórnendum Capacent ehf. vegna viðskipta frá 15. september 2010 þegar eignir Capacent hf. voru keyptar út úr félaginu sem síðan var gefið upp til skipta. Skiptastjóri Capacent hf., Guðrún Helga Brynleifsdóttir hrl., telur að eignirnar hafi verið seldar á undirverði úr félaginu og að þær hafi, a.m.k. að hluta, verið veðsettar kröfuhafa félagsins, Íslandsbanka. Af þeim ástæðum hafi viðskiptin falið í sér ólögmæta ráðstöfun á eignum sem eru í eigu Íslandsbanka. Skuldir Capacent hf., það er þess félags sem er til slitameðferðar, við Íslandsbanka eru um 1,6 milljarðar króna.

Deilur

Forsvarsmenn Capacent ehf., þar sem starfsmenn félagsins eiga nú um 60% hlut, hafa alfarið hafnað því að þeir hafi brotið lög er félag þeirra, sem þá hét CC 200 ehf., keypti eignir úr félaginu sem nú er í slitameðferð. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var kaupverðið um 90 milljónir króna. Um það hefur verið deilt hvort það var sanngjarnt, en ekkert verðmat lá til grundvallar er gengið var frá kaupunum.

Forsvarsmenn Capacent ehf. fengu hins vegar sérfræðinga til þess að verðmeta það sem til grundvallar lá eftir að viðskiptin áttu sér stað. Samkvæmt því mati var verðmiðinn í takti við eignavirði. En eins og áður segir eru skiptastjóri GH1, sem áður var Capacent hf., og kröfuhafinn Íslandsbanki alls ekki sammála þessu. Í stuttu máli telja þau að forsvarsmenn Capacent hafi ólöglega flutt eignir yfir á nýja kennitölu skömmu áður en það var tekið til skipta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.

Meðal annars efnis í blaði morgunblaðsins er:

  • Allt að 350% verðmunur á bílaleigubílum hér og erlendis
  • Endurheimtur Seðlabankans vegna FIH bundnar við virði Pandoru
  • Kunnuleg nöfn meðal kaupenda Sjóvár
  • Úttekt: Landsvirkjun í sterkri stöðu
  • Latibær aftur til Bandaríkjanna
  • West Ham tapaði milljörðum á síðasta ári
  • Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, ræðir söluna á Högum, umræðuna um launakjör og skráningarmöguleika bankans í viðtali við Viðskiptablaðið
  • Þúsund fyrirtæki keyra beinu brautina
  • Besti flokkurinn nýtur stuðnings á landsvísu meðal ungs fólks
  • Innlán erlendra aðila dragast saman