Hlutabréf þýsku bankanna Deutsche Bank og Commerzbank hafa fallið um nærri 8% í virði í morgun eftir að sjóðastýringarfyrirtækið Capital Group seldi bréf fyrir samtals 1,75 milljarða evra eða um 245 milljarða króna. Miðað við hluthafalista bankanna virðist sem Capital Group hafi selt allan eða nær allan hlut sinn í bönkunum tveimur.

Capital Group, sem var fyrir næst stærsti hluthafi Deutsche, seldi tæplega 5% hlut í bankanum fyrir 1,27 milljarða evra í gær, samkvæmt heimildum Financial Times .

Þá seldi einn fjárfestir einnig um 5% hlut í Commerzbank fyrir 475 milljónir evra en breska dagblaðið hefur ekki fengið staðfest hver seljandinn var. Í fjölmiðlum vestanhafs er þó almennt talið að sami fjárfestir hafi selt í bönkunum tveimur í gær. Capital Group var eini fjárfestirinn með yfir 5% hlut í báðum bönkum. Talsmaður sjóðastýringafyrirtækisins neitaði að tjá sig um málið við Wall Street Journal .

Capital Group seldi einnig 900 milljóna punda hlut í breska bankanum Barclays í síðasta mánuði. Sjóðastýringafyrirtækið er auk þess stærsti hluthafi franska fjárfestingabankans Société Générale með 7,8% hlut og er stærsti hluthafi ítalska bankans UniCredit með 6,4% hlut, samkvæmt gögnum frá því í janúar.

Capital Group er fjórði stærsti hluthafi Íslandsbanka með 5,06% hlut. Bandaríska sjóðastýringafyrirtækið var hornsteinsfjárfestir í hlutafjárútboðinu í júní 2021 og fékk þar úthlutað 3,85% hlut. Félagið bætti við sig í bankanum næstu mánuðina og tók einnig þátt í útboði Bankasýslunnar í síðasta mánuði.