Danski bjórframleiðandinn Carlsberg hyggst byggja nýja bjórverksmiðju í Rajasthan héraði í Indlandi. Carlsberg hefur ekki áður sótt á Indlandsmarkað, en fyrirtækið segir mikla vaxtarmöguleika vera á bjórmarkaði Indlands. Áætlað er að verksmiðjan verði opnuð í ársbyrjun 2008 og mun framleiðslugeta verða 450 þúsund hektólítrar. Árleg bjórneysla á mann í Indlandi er með því minna sem finnst í Asíu, eða um 0,7 lítrar á ári. Lagaumhverfi hefur gert áfengisframleiðendum erfitt fyrir að sækja á Indlandsmarkað, en áfengisauglýsingar eru bannaðar og er áfengi skattlagt eftir magni, ekki áfengismagni, sem gerir bjórsölu óhagkvæmari en ella.