Greiningarfyrirtækið Cazenove, eitt þeirra erlendu greiningarfyrirtækja sem metur Actavis, telur yfirtökutilboð Novators vera sanngjarnt.

Yfirtökutilboð Novators hljóðar upp á 85,23 krónur á hlut sem er 9% yfir lokagengi Actavis í Kauphöllinni í gær.  Greining Glitnis telur tilboð Novator of lágt og segir að ekki væri ráðlegt fyrir Actavis að taka tilboðinu. Í tilkynninu frá Cazenove segir að samkvæmt DCF greiningu sem tekur tillit til sjóðstreymis á núvirði (e. dicounted cash flow) sé verðmat Actavis 84 krónur á hlut.

Ólíkt greiningu Glitnis sem telur líkurnar á móttilboði frá öðrum samheitalyfjafyrirtækjum miklar telur David Adlington sérfræðingur hjá Cazenove að annarra tilboða sé ekki að vænta. ?Tímasetning tilboðs Novators skiptir þar sköpum en hin stóru samheitalyfjafyrirtækin sem myndu að öllu jöfnu hafa áhuga á að eignast Actavis, svo sem Barr, Teva og Mylan hafa öll staðið í ströngu nýverið og því ólíklegt að þau komi með tilboð,? segir Adlington. Hann vísar þar til þess að Barr yfirtók Pliva á síðasta ári með miklum tilkostnaði og Teva og Mylan eru föst í yfirstandandi slag um samheitalyfjahluta hins þýska Merck sem Actavis dró sig nýverið úr.