Ákveðið hefur verið að segja upp um 114 starfsmönnum íslenska tölvuleikjafyrirtækisins CCP og eru uppsagnirnar tengdar skipulagsbreytingum hjá fyrirtækinu. Starfsmönnum í Atlanta í Bandaríkjunum verður fækkað um 80 og starfsmönnum hér á landi um þrjátíu og fjóra.

Skipulagsbreytingarnar fela einkum í sér að aukin áhersla verður lögð á tvo tölvuleiki, EVE Online og Dust 514 en hægt verður á þróun á leiknum World of Darkness. Starfsmenn CCP eru nú alls um 600 talsins og segir í tilkynningu að þeim verði fækkað um 20%. Fækkunin er mest í Bandaríkjunum vegna þess að þar hefur þróunarvinnan við World of Darkness einkum farið fram. Segir í tilkynningunni að CCP muni leggja áherslu á að veita þeim starfsmönnum, sem hér eiga í hlut stuðning og hjálp við að finna ný störf.

Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP
Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Meiri áhersla á EVE Online

World of Darkness er eitt þeirra þróunarverkefna sem CCP hóf eftir sameininguna við bandaríska fyrirtækið White Wolf Publishing árið 2006. Vinna við World of Darkness mun halda áfram þó færra starfsfólk muni sinna þróun leiksins. EVE Online kom fyrst út árið 2003 og er stefna CCP að styðja enn betur við bakið á þróun EVE Online og viðbóta við leikinn á næstu misserum og útgáfu DUST 514 á næsta ári. Hilmar Veigar Pétursson forstjóri CCP er um þessar mundir staddur í Atlanta og vinnur að því með stjórnendum skrifstofunnar þar að endurskipuleggja starfsemina og færa til samræmis við breyttar áherslur fyrirtækisins. Haft hefur verið samráð við Vinnumálastofnun vegna þeirra starfsmanna sem missa störf sín hér á landi, og sambærileg yfirvöld í Georgíufylki í Bandaríkjunum.

Árangurinn fljótt sjáanlegur

Í tilkynningunni segir að vöxtur EVE Online millir ára milli ára bendi til þess að verulegt tækifæri sé fólgið í því að þróa og efla EVE heiminn enn frekar. Tenging EVE-heimsins við PlayStation leikjatölvur með tilkomu DUST 514 skotleiksins skapi enn fremur fjölmörg tækifæri fyrir báða þessa leiki. Það er mat CCP að hagsmunir fyrirtækisins af því að fullnýta þessi tækifæri kalli á endurskoðun á því hvernig kröftum fyrirtækisins er skipt. Markmiðið með þeirri endurskoðun sem nú á sér stað er að tryggja áframhaldandi vöxt og viðgang CCP til lengri tíma litið. Aðdáendur EVE Online muni sjá merki um árangur áðurnefndra breytinga á þróunarstarfi CCP strax í næstu uppfærslu af leiknum, sem væntanleg er síðar í vetur.

Úr sviðsmynd Dust 514 tölvuleik CCP
Úr sviðsmynd Dust 514 tölvuleik CCP
© Aðsend mynd (AÐSEND)