Bandaríska álfyrirtækið Century Aluminum, móðurfélag Norðuráls og skráð er í Kauphöll Íslands, tilkynnti í dag um stórfelldan niðurskurð í starfsstöðvum félagsins í Bandaríkjunum.

Samkvæmt tilkynningu frá Century er um að ræða uppsagnir allt að 13% starfsmanna vestanhafs, annars vegar í höfuðstöðvum félagsins í Kaliforníu og eins í starfsstöð félagsins í Kentucky.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að félagið hafi áður tilkynnt að til stæði að skera niður rekstrarkostnað, meðal annars með uppsögnum.

„Í ljósi hríðlækkandi verðs á áli höfum við enga aðra kosti en að grípa til stórfelldra aðgerða til að ná niður kostnaði,“ segir Logan Kruger, forstjóri Century í tilkynningunni og bætir því við að þrátt fyrir að langtímahorfur í áliðnaði séu bjartar þurfi að bregðast við núverandi aðstæðum.