Flugvélaframleiðandinn Cessna afhenti á dögunum níu þúsundustu einshreyfils flugvélina með sprengihreyfli sem fyrirtækið hefur framleitt í verksmiðju sinni í Independence í Kansas í Bandaríkjunum. Fyrsta einshreyfilsvélin sem Independence verksmiðjan framleiddi kom af framleiðslubandinu í nóvember 1996. Cessna er þó með framleiðslu víðar og hefur í heild framleitt yfir 154.000 einshreyfilsvélar síðan fyrirtækið var stofnað árið 1927.

Kaupandinn af vél númer 9000 var Rob Logozio, en vélin er af gerðinni Cessna 182T Skylane sem er háþekja. Flugvélin er með Textron Lycoming IO-540 mótor og Garmin G1000 fluguleiðsögutæki. Flugþol vélarinnar er yfir 900 mílur. Hægt er að fá túrbúníu á mótorinnn og þá eykst mesti flughraði úr 150 í 176 hnúta, eða í um 202 mílur á klukkustund.

Cessna framleiðir í verksmiðjum sínum í Independence vélar af gerðinni Skyhawk, Skylane, Stationair, Corvalis, Corvalis TT og Citation Mustang forstjóraþotur. Eru verksmiðjurnar staðsettar suðaustur af höfuðstöðvum Cessna í Wichita.