Yfirtaka Todd Boehly á knattspyrnufélaginu Chelsea fyrir 4,25 milljarða punda er í uppnámi vegna ágreinings á milli breskra stjórnvalda og rússneska eigandans Roman Abramovich á skilmálum kaupsamningsins, samkvæmt heimildum Bloomberg

Kaupin, sem voru samþykkt fyrr í mánuðinum, þurfa að fá heimild frá breskum ráðherrum til að tryggja að söluandvirði renni ekki til Abramovich, sem var beittur viðskiptaþvingunum í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu vegna tengsla hans við Vladímír Pútín Rússlandsforseta. 

Ágreiningurinn snýr að 1,6 milljarða skuldar knattspyrnufélagsins við Abramovich sem hafði samþykkt að falla frá kröfunni og að fjármununum yrði fremur ráðstafað til góðgerðarmála. Smáatriði í útfærslu á fyrirkomulagi eru sögð tefja ferlið. 

Boehly, sem er eigandi hafnarboltaliðsins LA Dodgers, vonast til að ganga frá viðskiptunum fyrir 31. maí næstkomandi þegar sérstakt rekstrarleyfi Chelsea rennur út. Gangi það ekki eftir á knattspyrnufélagið í hættu að geta ekki spilað leiki á næsta leiktímabili, að því er kemur fram í umfjöllun Bloomberg.