Bandaríska raftækjakeðjan Circuit City tilkynnti í dag að til standi að loka 155 verslunum víðs vegar um Bandaríkin en það er um 20% allra verslana keðjunnar.

Þetta kemur fram á fréttavef MSNBC.

Verslanir Circuit City eru nú yfir sjö hundruð talsins víðs vegar um Bandríkin, en keðjan er sú næst stærsta á eftir Best Buy.

Á morgun verða fjölmargar verslanir Circuit City lokaðar og mun rýmingarútsala hefjast strax á miðvikudag.

Circuit City hyggst þá einnig fara út í frekari sparnaðaraðgerðir. Meðal annars verður opnunartími styttur auk þess sem reynt verður að semja upp á nýtt við lóðareigendur þar sem verslanir keðjunnar eru til húsa.

Í tilkynningu frá Circuit City kemur fram að full ástæða sé til að hefjast handa nú þegar þar sem gert er ráð fyrir mun minni jólaverslun en í fyrra. Þá sagði talsmaður félagsins í samtali við fjölmiðla að Circuit City myndi einfaldlega ekki höndla lélega jólaverslun með allar verslanir opnar.