Bandaríski fjárfestingabankinn Citigroup er nálægt því að ljúka við sölu á lánum, sem fjárfestingasjóðir hafa tekið til að fjármagna skuldsettar yfirtökur, fyrir 12 milljarða Bandaríkjadala til fjárfestingafyrirtækjanna Apollo Management, Blackstone og TPG.

Sérfræðingar segja að verði samningurinn að veruleika sé um að ræða stærstu sölu sinnar tegundar frá því að lánsfjárkreppan á fjármálamörkuðum hófst síðastliðið sumar, og marki ákveðin tímamót fyrir fjármálastofnanir sem reyna nú eftir fremsta megni að hreinsa til á efnahagsreikningum sínum.

Lánasafnið inniheldur meðal annars lán sem voru veitt til að fjármagna yfirtökur Apollo, Blackstone og TPG.

Fram kemur í frétt Financial Times að Apollo muni kaupa helming lánasafnsins, á meðan Blackstone og TPG skipti með sér afganginum. Heimildarmenn blaðsins segja að fjárfestingafélögin hafi samþykkt að kaupa lánasafnið á tæplega 90 sent fyrir hvern Bandaríkjadal.

Citigroup, sem er með um 43 milljarða dala af útlánum til skuldsettra kaupa á efnahagsreikningi sínum, hefur þurft að afskrifa um 1,5 milljarða dala í tengslum við lán til skuldsettra yfirtaka.

Citigroup gaf upphaflega út skuldina til að fjármagna skuldsettar yfirtökur fjárfestingasjóða. Á þeim tíma var það von Citigroup að bankinn gæti í kjölfarið selt skuldina til áhugasamra fjárfesta. En þegar lánsfjárkreppan skall á fjármálamörkuðum hvarf nánast eftirspurnin eftir áhættusömum skuldabréfum og lánum.

Eftir stóðu fjármálafyrirtækin á Wall Street, þar á meðal Citigroup, með tugir milljarða dala af skuldabréfum á bókum sínum sem engin vildi kaupa.

____________________________________

Nánar verður fjallað um málið í erlendum fréttum Viðskiptablaðsins á morgun. Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld, lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .