Bandaríska bankasamstæðan Citigroup gerir ráð fyrir því að eftir 30 - 50 ár verði fáir reykingamenn eftir í hinum vestræna og þróaða heimi, þó með fáum undantekningum.

Þetta kemur fram í skýrslu bankans um tókbaksiðnaðinn.

Í skýrslu Citigroup er notast við tölur um hlutfall reykingamanna í OECD ríkjunum sl. 40 – 50 ár, eftir því hversu langt aftur í tímann þær ná. Með því að gefa sér að sama þróun haldi áfram, þ.e. fækkun reykingarmanna, gerir bankinn ráð fyrir að allir verði búnir að drepa í eftir hálfa öld.

Þannig kemur m.a. í ljós að frá árinu 1960 hefur hlutfall reykingarmanna farið úr 53% í 21%. Í öllum ríkjum OECD hefur hlutfall reykingarmanna minnkað töluvert sl. áratugi, þó mishratt.

Skýrslan var birt á föstudagsmorgun en við lok markaða á föstudag hafði gengi hlutabréfa í British American Tobacco og Imperial Tobacco lækkað um tæp 30% á einum degi á mörkuðum í New York. Greiningaraðilar vestanhafs gera þó ráð fyrir að gengið hækki aftur þar sem peningaflæði tóbaksfyrirtækja er nokkuð stöðugt og allt útlit fyrir að svo verði næstu árin.

Hins vegar gætu ný lög, þar sem tóbaksfyrirtækjum verður óheimilt að merkja sígarettupakka sína með merkjum eða vöruheitum, haft áhrif á tóbaksframleiðendur. Greiningaraðilar á vegum Citigroup gera þó ekki ráð fyrir að það muni hafa mikil áhrif á stærstu framleiðendurna þar sem fæstir reykingarmenn skipti um tegundir, þvert á móti sýni kannanir að flestir reykingarmenn séu nokkuð íhaldssamir á þá tegund sem þeir reykja nú þegar.

Á föstudag mælti Citigroup gegn kaupum í hlutabréfum skráðra tóbaksfyrirtækja.

Hafa mikla trú á Svíum

Sem fyrr segir tók Citigroup saman upplýsingar um hlutfall og þróun reykingarmanna í OECD ríkjunum. Hér að neðan má sjá lista yfir helstu ríkin og hvenær Citigroup gerir ráð fyrir því að allir verði búnir drepa í rettunni, í fyrsta lagi (núverandi hlutfall reykingarmanna í sviga). Sem fyrr segir virðast Citigroup menn hafa litla trú á reykleysi sumra ríkja, m.a. Finna og Ítala, sem munu samkvæmt þessu ekki drepa í fyrr en eftir rúm 80 ár.

Samkvæmt skýrslunni verða Íslendingar þó búnir að drepa í eftir 22 ár, í fyrsta lagi

  • Ástralía (17%) – 2030
  • Bandaríkin (21%) – 2046
  • Belgía (20%) – 2051
  • Bretland (21%) – 2040
  • Finnland (21%) – 2093
  • Frakkland (25%) – 2048
  • Holland (28%) – 2048
  • Ísland (16%) – 2033
  • Ítalía (23%) – 2091
  • Japan (24%) – 2054
  • Kanada (18%) – 2040
  • Noregur (21%) – 2042
  • Nýja Sjáland (18%) – 2058
  • Spánn (26%) – 2056
  • Svíþjóð (15%) – 2028
  • Þýskaland (23%) – 2060