Sprotafyrirtækið Clara hefur vakið mikla athygli undanfarin ár en framleiðandi eins stærsta tölvuleikjar heims, League of Legends, bættist í viðskiptavinahóp fyrirtækisins í fyrra.

Það er ekki eini stórsamningurinn sem Clara hefur gert því á meðal viðskiptavina eru Sony Computer Entertainment America og hið íslenska fyrirtæki CCP. Gunnar Hólmsteinn framkvæmdastjóri segir margt spennandi vera á döfinni.

Gunnar segir notendur samfélaganna í dag vera í kringum 6 milljónir mánaðarlega og vöxturinn því mikill. Hann segir næsta skref það að halda áfram að þróa greiningartólin og fara inn á fleiri iðnaði. Hingað til hefur fyrirtækið einbeitt sér að samfélögum í kringum tölvuleiki en nú er stefnan að nýta greiningartólin í öðrum hluta skemmtanaiðnaðar og í kringum fjarskiptafyrirtæki í Bandaríkjunum.

„Það hefur verið mjög gott að vinna með öflugum forriturum hér og við viljum halda áfram að byggja upp hugbúnaðarpartinn hér á Íslandi ásamt rannsóknum og þróun,“ segir Gunnar. Fyrirtækið Clara var stofnað árið 2008 og er með dótturfyrirtæki í San Francisco. „Núna erum við að vinna í allskonar sölusamningum þar sem við komum okkar hugbúnaði inn í hugbúnað annarra sem þeir síðan selja. Þetta hefur gengið mjög vel.“