Claudie Ashonie Wilson hefur bæst í hóp eigenda hjá lögmannsstofunni Rétti – Aðalsteinsson & Partners, en hún hefur starfað hjá Rétti síðan árið 2013. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Réttar.

Claudie útskrifaðist úr lagadeild Háskólans í Reykjavík árið 2014 og hlaut lögmanssréttindi árið 2016, en hún er fyrsti innflytjandinn utan Evrópu til að öðlast lögmannsréttindi á Íslandi. Claudie flutti til Íslands frá heimalandi sínu, Jamaíku, árið 2001.

Frá árinu 2013 til 2014 starfaði Claudie með námi hjá Rétti en hóf störf sem fulltrúi við útskrift árið 2014. Hún hefur gengt stöðu verkefnastjóra frá vorinu 2018. Helstu starfssvið Claudie eru mannréttindi, útlendinga- og flóttamannaréttur, gjaldþrotaskipti og refsiréttur. Þá hefur hún sérhæft sig í öflun atvinnuleyfa fyrir erlenda sérfræðinga til að starfa hjá íslenskum fyrirtækjum sem og erlendum fyrirtækjum með starfstöðvar hérlendis.

Samhliða lögmannsstörfum sínum er Claudie stundakennari við Háskóla Íslands, Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og hefur nýlega tekið við sæti í fagráði Jafnréttissjóðs Íslands.

Claudie er eftirsóttur fyrirlesari í tengslum við mannréttindi og jafnréttismál og hefur haldið fyrirlestra á fjölmörgum viðburðum á vegum stjórnvalda, skóla og hagsmunasamtaka. Þá stýrði Claudie rannsókn á vegum lögmannstofunnar um jöfn tækifæri innflytjenda til að starfa innan stjórnsýslunnar.

Hjá Rétti starfa 14 starfsmenn og eru eigendur nú sex talsins;  Ragnar Aðalsteinsson, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Sigurður Örn Hilmarsson,  Kári Hólmar Ragnarsson og Sigrún Ingibjörg Gísladóttir auk Claudie.