Tap þýska bankans Commerzbank nam alls 809 milljónum evra á fjórða ársfjórðungi síðasta árs en að sögn Martin Blessing, forstjóra bankans var 2008 eitt erfiðasta ár sem bankinn hefur upplifað.

Hagnaður bankans yfir árið nemur um 3 milljónum evra en Commerzbank samstæðan sem heild tapaði engu að síður 1,7 milljarði evra þar sem fasteigna- og fjárfestingafélög í eigu bankans töpuðu miklu á árinu.

Samkvæmt frétt BBC af uppgjörsfundi bankans hefur stjórn bankans ákveðið að greiða enga bónusa fyrir árið 2008. Þó hefur BBC eftir Eric Strutz, fjármálastjóra bankans að einhverjir einstaklingar muni fá greiðslur sem verði greiddar „með tilliti til framlags þeirra,“ eins og hann orðaði það.

Þá mun bankasamstæðan engan arð greiða fyrir árið 2008 en bankinn á nú í viðræðum við þýsk stjórnvöld um að þau taki yfir 25% hluta samstæðunnar gegn neyðarláni.