Conan O‘Brien, sem stýrði spjallþáttum í hartnær þrjár áratugi, hefur selt hlaðvarpsfyrirtækið sitt Team Coco til útvarpsfyrirtækisins Sirius XM Holdings. Samningurinn, sem er einn sá stærsti í hlaðvarpsgeiranum til þessa, er metinn á 150 milljónir dala eða um 19,6 milljarða króna. WSJ greinir frá.

O‘Brien, sem stýrði um tíma The Tonight Show, fór af stað með hlaðvarpið Conan O’Brien Needs a Friend árið 2018. Hlaðvarpið var númer 26 á lista Edison Research yfir vinsælustu hlaðvörpin í Bandaríkjunum á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Team Coco heldur úti tíu hlaðvörpum en af þeim er hlaðvarpið í umsjón O‘Brien það langvinsælasta og vegur um tvo þriðju af spilunum þeirra. Samningurinn við Sirius inniheldur fimm ára samstarfssamning við O‘Brien.

Auk hlaðvarpsins heldur fyrirtækið úti Youtube-síðum sem skiluðu 10 milljónum dala í auglýsingatekjur á síðasta ári. Youtube-síðan Team Coco, sem er með rúmlega 8,5 milljónir áskrifendur, hefur að geyma efni frá gömlu spjallþáttunum hans.

O‘Brien, sem hætti með spjallþáttinn CONAN á sjónvarpsstöðinni TBS sumarið 2021, tjáði WSJ í fyrra að hann hafi ekki verið hlynntur hugmyndinni að byrja með hlaðvarp í fyrstu. Lengri viðtöl og frelsi frá myndavélinni reyndust honum þó vel þegar uppi var staðið.