Næsta mánudag hefst ráðstefnan connectXion 2014 í Hörpu. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands setur ráðstefnuna, en á hana hafa vel á fimmta hundrað manns boðað koma sína, þar af um þrjú hundruð erlendir gestir frá 50 löndum.

Á þriðja tug íslenskra og erlendra fyrirlesara frá fjölda landa halda erindi á ráðstefnunni, en aðalfyrirlesari verður hinn þekkti ráðgjafi, rithöfundur og fjölmiðlamaður Doug Stephens frá Kanada.

Stephens er sérfræðingur í þróun smásöluverslunar og breytingum í kauphegðun neytenda samfara örri tækniþróun. Hann spáir því að á næstu tíu árum muni smásöluverslanir upplifa meiri breytingar í rekstrarumhverfinu en áður hafa sést, breytingar sem jaðrað geti við algera byltingu.