Í lok ágúst funduðu starfsmenn kínverska skipafélagsins Cosco Shipping, sem er þriðja stærsta skipafélag heims, með sveitarstjóra Langanesbyggðar, verkfræðistofunni EFLU og fulltrúum frá stjórnvöldum um áform um uppbyggingu stórskipa- og olíuhafnar í Finnafirði.

Óskuðu starfsmenn frá skrifstofu skipafyrirtækisins eftir kynningu á verkefninu og var alls um þrjá fundi að ræða skipulagða af EFLU dagana 24. til 26. ágúst að því er Fréttablaðið greinir frá.

Enn einungis hugmynd

„Þeir höfðu séð úti í Kína kynningu á verkefninu og áttu leið hingað til lands og óskuðu eftir fundi,“ segir Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar. „Það eru engir aðrir fundir fyrirhugaðir og maður veit svo sem ekkert hvort það verður eitthvað. Hugmyndin í Finnafirði er góð en er enn einungis hugmynd.“

Í maí 2016 var undirrituð viljayfirlýsing um uppbyggingu hafnarinnar af fulltrúum íslenskra stjórnvalda, Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps, EFLU og þýska fyrirtækisins Bremenport, en samstarfssamningur um verkefnið hafði verið undirritaður tveimur árum áður.

Framkvæmdir gætu hafist innan fimm ára

Er hugmyndin sú að Bremenport leiði fjármögnun framkvæmdanna og öflun verkefna fyrir væntanlega höfn. Gætu framkvæmdir hafist eftir þrjú til fimm ár. „Það er búið að ráðast í jarðvegsrannsóknir í firðinum og á gróðri og dýralífi,“ segir Elías.

„Síðan var skrifað undir viljayfirlýsinguna árið 2016 og verkefnið er í raun statt þar ennþá. Svo er verið að kynna þetta á ráðstefnum um allan heim en sveitarfélagið á enga aðkomu að því.“