Verslanakeðjan Costco lýsir yfir ánægju með frumvarp Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem felur í sér aukið frelsi í smásölu með áfengi hér á landi. Þetta kemur fram í umsögn fyrirtækisins um frumvarpið.

Í umsögninni er bent á að það sé ekki hlutverk ríkisins að sinna smásölu. Hlutverk ríkisins sé að setja reglur um smásölu og hafa eftirlit með henni ef nauðsyn þyki. Það sé hins vegar hlutverk einkaaðila að selja vörur og þjónustu í samræmi við þær reglur sem stjórnvöld hafa sett. Þetta sjónarmið eigi við um áfengi sem aðrar neysluvörur og nauðsynjavörur.

Fram kemur í umsögninni að Costco leggi áherslu á að viðskiptavinir fyrirtækisins fái notið gæðavara. Félagið sé til að mynda stærsti innflytjandi franskra vína til Bandaríkjanna, og það hafi nú þegar komið á viðskiptasamböndum sem geti leitt til nýbreytni og aukið úrval léttvína sem og annarra áfengistegunda.

Costco hvetur því til þess að frumvarpið nái fram að ganga, þar sem samþykkt þess muni veita því tækifæri, ef af opnun vöruhúss þess verður, til að bjóða Íslendingum upp á sambærilegt vöruúrval og gerist í vöruhúsum fyrirtækisins á öðrum stöðum í heiminum. Lýsa forsvarsmenn þess jafnframt vilja til að koma fyrir nefnd og ræða sjónarmið og reynslu Costco af sölu áfengis og hvernig frumvarpið geti orðið að veruleika.