CrankWheel hefur nú sett skjádeilivöru sína í loftið á vefsíðunni Product Hunt. Vefsíðuna nota milljónir manna um heim allan til þess að uppgötva ný forrit og aðrar vörur, hvort sem er til gagns eða gamans. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um áður er Crankwheel sprotafyrirtæki sem þróar skjádeililausnir fyrir alls kyns fyrirtæki og þjónustuaðila.

CrankWheel leyfir manni að deila skjá sínum með hvaða viðskiptavini sem er, án nokkurs undirbúnings eða innsetningar á hugbúnaði. Engu máli skiptir hversu gömul tölva þeirra eða snjallsími er, og gerir þér á sama tíma kleift að sjá hvenær viðskiptavinurinn sér það sem verið er að sýna.  Jóhann Tómas Sigurðsson og Þorgils Sigvaldason eru stofnendur CrankWheel.

Eiginleikar sem CrankWheel teymið gefur út í dag fyrir alla viðskiptavini eru stuðningur fyrir fjöldafundi, möguleiki á sérmerkingu vöru, betrumbættur stuðningur við lélegar nettengingar, ný og einfölduð verðlagning, og sjálfvirk þjálfun fyrir alla notendur.

Fyrir stóra viðskiptavini er meðal annars verið að gera það aðgengilegt að geta algjörlega sérsniðið útlit, að geta endurskoðað notkun og að geta bannað deilingu ákveðins efnis. Þá verður einnig hægt að samtengja CrankWheel við viðskiptamannakerfi.

Í tilkynningu segir að CrankWheel hafi farið frá núll borgandi viðskiptavinum upp í sautján á einungis 5 mánuðum, en þar af eru tveir erlendir. Þá hafi notkun og fjöldi stórnotenda fjórfaldast frá áramótum.