Stjórnir þýska félagsins Schufa Holding AG og íslenska félagsins Creditinfo Group hf. hafa samþykkt sameiningu félaganna að því er kemur fram í tilkynningu.

Schufa er stærsta fyrirtæki Þýskalands á sviði fjárhagsupplýsinga, og Creditinfo Group hf., leiðandi fyrirtæki á sviði áhættustýringar í ellefu Evrópulöndum.

Í hinu nýja fyrirtæki munu verða veittar lánshæfisupplýsingar auk virðisaukandi þjónustu s.s. hugbúnaðarlausnir um mestalla Evrópu. Nafn hins nýja félags er Creditinfo Schufa GmbH og verður aðsetur þess í Wiesbaden, Þýskalandi.

Ákvörðun þessa efnis hefur verið tekin af stjórn Schufa Holding AG og stjórn Creditinfo Group. “Í heimi sem verður sífellt tengdari efnahagslega er það eðlilegt skref hjá Schufa að sækja á ný mið í öðrum löndum. Samstarfsaðili okkar, Creditinfo Group, hefur mikla reynslu á alþjóðamörkuðum og með það sem samstarfsaðila sé ég gríðarmikla möguleika í þessu nýja viðskiptamódeli á komandi árum," segir Dietmar P. Binkowska, formaður yfirstjórnar Schufa Holding AG og forstjóri NRW-Bank, eins stærsta banka Þýskalands í tilkynningu.

“Með því að sameina þekkingu og vörur Schufa annars vegar og útbreiðslu og vöruþekkingu Creditinfo Group hins vegar, getum við veitt viðskiptavinum um alla Evrópu þjónustu okkar”, bætir Rainer Neumann forstjóri Schufa við. “Það er mikilsvert að fá svo virt fyrirtæki í fremstu röð á sviði fjárhagsupplýsinga í samstarf við okkur; það hlýtur að teljast viðurkenning á því starfi okkar að veita viðskiptavinum hágæðalausnir á sviði áhættustýringar, sem og á siðferði og því frumkvæði sem við teljum hafa einkennt viðskiptahætti okkar. Fyrir Creditinfo var Schufa sannarlega fyrsti valkostur”, segir Reynir Grétarsson, forstjóri Creditinfo Group hf.

Í tilkynningu kemur fram að Schufa var stofnað árið 1927 og er það helsti samstarfsaðili þýskra banka og sparisjóða á sviði fjárhagsupplýsinga. Með þjónustu sinni auðveldar Schufa viðskiptavinum sínum, er stunda lánsviðskipti, að taka ákvarðanir. Ávinningur neytenda af starfi Schufa felst m.a. í einfaldari og skjótari ákvarðanatöku. Á árinu 2007 nam velta Schufa um 89 milljónum evra, en hjá því starfa 768 starfsmenn. Hluthafahópur Schufa Holding AG samanstendur m.a. af stærstu bönkum og sparisjóðum Þýskalands, s.s. Deutche bank og Commertzbank auk annarra fyrirtækja er veita viðskiptavinum sínum lánafyrirgreiðslu.

Creditinfo Group var stofnað á Íslandi árið 1997 og hefur það vaxið einna hraðast fyrirtækja á sínu sviði, en á tímabilinu 1998 til 2007 nam meðalvöxtur fyrirtækisins yfir 50%. Tekjur félagsins árið 2007 voru u.þ.b. 22 milljónir evra. Fyrirtækið veitir margskonar þjónustu á sviði áhættustýringar og miðlun fjárhagsupplýsinga, þar á meðal hugbúnað og módel er auðvelda ákvörðunartöku lánveitenda. Helstu markaðir eru í Mið- og Austur-Evrópu, en samtals starfa 450 manns í 11 löndum hjá samsteypunni. Fyrirtækið er í meirihlutaeigu íslenskra aðila en fjórðungshlutur þess er í eigu erlendra aðila.