*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 20. nóvember 2021 13:29

Fundu sam­ráðs­gögn í tölvu látins manns

Skeljungur, Magn og fyrrverandi forstjóri þeirra hafa verið dæmd bótaskyld fyrir að nýta trúnaðarupplýsingar úr viðræðum í Noregi.

Ingvar Haraldsson
Færeyingurinn Hendrik Egholm var forstjóri Skeljungs á meðan viðræðurnar við Marine Supply áttu sér stað.
Haraldur Guðjónsson

Skeljungur, dótturfélagið  P/F Magn í Færeyjum, Hendrik Egholm, fyrrverandi forstjóri Skeljungs og Magn, og einn núverandi stjórnenda Magn, voru dæmd bótaskyld gagnvart norska félaginu Marine Supply AS fyrir héraðsdómi í Tromsö í Noregi í gær.

Skeljungur segir Marine Supply hafi stefnt félögunum fyrr að hafa brotið gegn trúnaðarskyldu í viðræðum fyrirtækjanna um samstarf árið 2018. Í frétt norska staðarmiðilsins iTromso.no kemur fram að Marine Supply hafi fyrir dómi sagst hafa átt í viðræðum við Skeljungur og Magn um að selja þeim skipaeldsneytishluta fyrirtækisins. Hinir stefndu hafi nýtt viðskiptaupplýsingar frá Marine Supply úr viðræðunum með það að markmiði að fara í beina samkeppni við norska fyrirtækið.

Fundu gögn um meint samstarf eftir andlát lykilstarfsmanns

Málið hafi komist upp í kringum jólin 2019. Þá lá, Claes Ture Moberg, einn lykilstarfsmanna Marine Supply, banaleguna og haft var samband við Erik Mathisen, forstjóra Marine Supply, sem skráður var nánasti aðstandandi mannsins. Mathisen hafi því yfirgefið fjölskyldu sína um jólahátíðina til að vera með Moberg síðustu daga hans á lífi samkvæmt málflutningi Marine Supply fyrir dómi. Moberg lést í Stokkhólmi þann 29. desember 2019.

Mathisen hafi í kjölfarið tekið tölvu Moberg með sér heim til Tromsö í von um að erfðaskrá eða annan sambærilegt. En í staðinn fann hann ítarleg samskipti Moberg og Tore Andre Gutteberg, sem þá starfaði hjá Marine Supply og var einnig stefnt var í málinu, um hvernig þeir gætu í samstarfi Skeljung og Magn farið í beina samkeppni við Marine Supply.

Skeljungur áfrýjar dómnum

Skeljungur og aðrir hinna dæmdu eru ósammála niðurstöðunni og munu áfrýja málinu samkvæmt tilkynningu frá Skeljungi sem send var út í gærkvöldi. „Er það enda mat lögmanna Skeljungs að ekkert tjón hafi orðið vegna þeirrar háttsemi sem sakfellt var fyrir. Komi til þess að fjárkrafa verði sett fram og fallist verði á hana hefur Skeljungur í gildi stjórnendaábyrgðartryggingu sem félagið telur að taki til þessa máls. Möguleg fjárhagsleg áhrif á Skeljung eru því hverfandi," segir í tilkynningunni frá Skeljungi.

Engin fjárkrafa hafi heldur verið sett fram vegna málsins og þá hafi það engin áhrif á fyrirhugaða sölu Skeljungs á Magn í Færeyjum.

Stikkorð: Skeljungur Magn Marine Supply