Landssamtök auglýsenda í Bandaríkjunum hvetja hæstarétt til að taka fyrir mál Kaliforníufylkis gegn málningaframleiðandanum Sherwin-Williams, sem var dæmdur fyrir yfir 100 ára gamla auglýsingu.

Árið 1904 – sama ár og Hannes Hafstein tók við sem fyrsti ráðherra Íslands, og fyrsti bíllinn kom til landsins – auglýsti Sherwin-Williams málningu sína með orðunum „settu SWP (Sherwin-Williams Paint) á húsið þitt og þú verður sáttur og sparar pening í hvert skipti,“. Auk þess var tekið fram að málninguna mætti nota jafnt innandyra sem utan, en hún innihélt blý.

110 árum síðar, árið 2014, úrskurðaði dómstóll í Kaliforníu að nokkur málningafyrirtæki, þeirra á meðal Sherwin-Williams, hefðu verið meðvituð um eitrunaráhrif blýmálningar í áraraðir, en haldið ótrauð áfram að markaðsetja og selja hana. Fyrirtækin voru dæmd til að borga samanlagt 1,15 milljarða dollara, um 123 milljarða króna, í sjóð á vegum ríkisins sem fjármagnar aðgerðir til að koma í veg fyrir heilsutjón vegna blýmálningar.

Meðal sönnunargagna sem lögð voru fram gegn Sherwin-Williams voru innri samskipti starfsmanna fyrirtækisins árið 1900, þar sem vísað var til hvíts blýs, sem notað var í málningu, sem „banvæns eiturs“.

Fyrirtækin báru hins vegar fyrir sig að þau hafi ekki þekkt hætturnar sem fylgdu blýmálningu, enda hafi þær ekki verið vísindalega sannaðar fyrr en mun seinna. Alríkisyfirvöld Bandaríkjanna bönnuðu notkun blýmálningar á heimilum árið 1978. Fyrirtækin segja refsinguna óeðlilega, enda auglýsingarnar hafa verið í góðri trú og eftir bestu vitund þess tíma, og varan verið lögleg.

Umfjöllun Wall Street Journal .