Saab 9-5
Saab 9-5
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Fátt virðist geta orðið til þess að bjarga sænska bílaframleiðandanum SAAB Automobile frá gjaldþroti. Bæði sænska ríkisstjórnin og Evrópski fjárfestingarbankinn (EIB) hafa neitað að veita rússneska auðkýfingnum Vladimir Antonov heimild til þess að kaupa hlut í félaginu að sögn talsmanns hans. Antonov var af mörgum talin eina von fyrirtækisins en hann hefur lýst sig reiðubúinn til þess að veita félaginu það fé sem það þarf til þess að forðast gjaldþrot.

SAAB hefur ekki getað staðið við skuldbindingar sínar að undanförnu og hafa margir birgjar félagsins hætt að afhenda því vörur. Jafnframt hefur fyrirtækið ekki getað greitt laun undanfarna mánuði. Þá eru skuldir þess til innheimtu hjá fulltrúum sænska ríkisins og vandi félagsins hefur einnig valdið því að einhverjir birgjar hafa þurft að leggja upp laupana.