Jóladagatal fjölskyldunnar er hugmynd Erlu Björnsdóttur sálfræðings og Þóru Hrundar Guðbrandsdóttur markaðssérfræðings. Dagatalið er prentað í 3.000 eintökum í ár en upphaflega var lagt upp með 500 eintök. Erla byrjaði á að útbúa þetta dagatal fyrir drengina sína fjóra og fann hún fyrir miklum áhuga annarra á þessu frumlega dagatali. „Þetta er fjölskyldudagatal og hver dagur í desember fram að jólum einkennist af lítilli samverustund sem fjölskyldan gerir saman. Þetta á ekki að kosta mikið og allir eiga geta gert þetta, óháð staðsetningu. Þetta krefst í raun lítillar fyrirhafnar.“

Þó að súkkulaðidagatalið sé líka á sínum stað hjá drengjum Erlu er þetta dagatalið sem er opnað fyrst á morgnana. „Ég byrjaði að föndra þetta með þeim og það hefur alltaf verið toppurinn að opna fjölskyldudagatalið. Ég hef síðan talað um þetta og fengið jákvæð viðbrögð. Við Þóra vinkona vorum að spjalla um þetta í haust á kaffistofunni og þá kom þessi hugmynd.“

Mismunandi útfærslur

Þrátt fyrir að hver gluggi sé ákveðinn af Þóru og Erlu í dagtalinu getur fólk útfært hugmyndirnar á sinn hátt og útfært eftir aðstæðum. „Ef það á til dæmis að fara út í leiki þá er hægt að gera það á mismunandi hátt. Stundum eru líka nokkrar hugmyndir í dagatalinu,“ segir Erla. Gluggarnir eru fjölbreyttir og allir til þess gerðir að fjölskyldan eyði tíma saman. „Til dæmis er einn dagurinn „jólin í gamla daga“. Fjölskyldan getur þá setið saman og rifjað upp jólin í gamla daga, til dæmis þegar foreldrarnir voru litlir og skoðað gamlar myndir. Jafnvel er hægt að skoða myndir og rifja upp jólin þegar krakkarnir voru yngri.“

Nánar er spjallað við Erlu í Jólagjafahandbókinni sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .