Verulegar breytingar eru fyrirhugðar á starfsemi Og fjarskipta. Á hluthafafundi sem nú stendur yfir verður lögð fram tillaga um að nafni félagsins verði breytt í Dagsbrún. Framvegis verður félagið eignarhalds- og fjárfestingafélag á sviði fjarskipta, fjölmiðlunar og afþreyingar. Dagsbrún stefnir að því að tvöfalda umsvif sín á næstu 18-24 mánuðum.

Nafnið Dagsbrún verður hér eftir skráð í Kauphöll Íslands, í stað Og fjarskipta. Dagsbrún mun nota auðkennið db í Kauphöll Íslands. Dagsbrún verður móðurfélag 365 ljósvaka- og prentmiðla og fjarskiptafélaganna Og Vodafone, P/F Kall í Færeyjum og Internet á Íslandi. Þá á samstæðan hlut í Ísafoldarprentsmiðju, Pósthúsinu og Saga film.

"Með því að sérhæfa sig í rekstri fjölmiðla og fjarskiptafélaga getur Dagsbrún notfært sér sérstöðu einstakra félaga en um leið náð fram aukinni samlegð. Auk ofangreindrar starfsemi verður fjármálaumsýsla móður- og dótturfélaga innan Dagsbrúnar," segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Þar kemur einnig fram að Dagsbrún mun leggja áherslu á tækifæri til vaxtar bæði hér heima og erlendis og stefnir að því að verða alþjóðlegt fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtæki. Þegar hefur verið markað upphaf að vexti á erlendri grund með kaupum á fjarskiptafélaginu P/F Kall í Færeyjum á þessu ári. Þá ætlar Dagsbrún að taka þátt í alþjóðlegum fjárfestadegi í Kauphöllinni í Lundúnum í Bretlandi í byrjun nóvember til þess að kynna félagið fyrir fjárfestum þar í landi.

Búast má við að tímabundið muni kostnaður aukast í kringum skipulagsbreytingar í félaginu. Þrátt fyrir það telja stjórnendur ekki ástæðu til þess að endurskoða áætlanir félagsins út árið og gera ráð fyrir að rekstrartekjur muni nema 14.500 til 14.600 m.kr eins og áður hefur komið fram. Félagið gerir ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 3.000 til 3.100 m.kr. Þá stefnir Dagsbrún að því að tvöfalda umsvif sín á næstu 18-24 mánuðum eins og áður segir.